Eins og svo margir Goodreads perrar, Harry Potter nördar og femínistar var ég fljót að stökkva um borð í bókaklúbb Emmu Watson á Goodreads. Ég játa að ég hef dregist aðeins aftur úr því maður les nú ýmislegt annað líka en núna seinast lauk ég við að lesa Persepolis eftir Marjane Satrapi.
Persepolis er myndasaga sem segir frá æsku Satrapi í Íran á meðan stríð geisar á milli Íran og Írak og svo allt fram að fullorðinsárum hennar. Að eigin sögn segir Satrapi söguna vera skáld-ævisögu því það sé jú erfitt að segja nákvæmlega rétt og satt frá einhverju sem gerst hefur í raunveruleikanum, minni mannsins er ekki óbrigðult og hlutum er oft hliðrað til fyrir frásögnina. En burt séð frá því getum við gert ráð fyrir að sagan sé í grófum dráttum sönn.
Femínistinn í mér fagnaði hástöfum þessari uppreisnargjörnu persónu sem stendur alltaf með sjálfri sér, sama þó hún eigi á hættu að þurfa að búa á götunni ef hún missir stjórn á skapi sínu og svarar fyrir sig. Manneskjan í mér óttaðist stöðugt að hún kæmi sér í alvarleg vandræði með því að hafa alltaf munninn fyrir neðan nefið. Áhyggjulausi evrópubúinn í mér heillaðist að þessari framandi frásögn sem gefur okkur innsýn í líf fólks sem þarf að búa við stríð á sama tíma og ég skammaðist mín fyrir alla fordómana og erfiðleikana sem þetta fólk mætir ef það kýs að flýja þessar aðstæður.
Persepolis finnst mér að mætti taka inn í kennsluskrár menntaskóla landsins og bjóða íslenskum ungmennum að setja sig í fótspor Marji þegar foreldrar hennar senda hana eina, aðeins 14 ára gamla, til Austurríkis til að búa hjá ókunnugum og ganga þar í skóla. Skilningsleysið og fordómarnir sem hún mætir eru meiri en maður getur ímyndað sér fyrir unga stúlku í hennar sporum.
Mæli sannarlega með því að lesa þessa bók og næst á dagskrá verður að skoða teiknuðu kvikmyndina sem gerð var eftir sögunni.

Leave a comment